Meistaramánuður Logo

Meistaramánuður

Hvað er Meistaramánuður?

Meistaramánuður Íslandsbanka hefst 1. febrúar. 

Í meistaramánuði skora þátttakendur sjálfa sig á hólm, setja sér markmið og verða besta útgáfan af sjálfum sér en það geta allir tekið þátt í Meistaramánuði

Markmiðin geta verið stór og smá en í gegnum árin hafa þátttakendur til dæmis sett sér markmið um að heimsækja ömmu og afa, taka mataræðið í gegn, klífa fjöll og fara fyrr á fætur.

Skoraðu á sjálfan þig

Lifðu eins og meistari

#meistaram

Spurt og svarað

Afhverju er þetta 1 mánuður?

Rannsóknir sýna að það tekur mann að minnsta kosti 21 dag að koma sér upp nýjum venjum. Í hóp með öðrum verður það bæði skemmtilegra og auðveldara. Þess vegna er Meistaramánuður tilvalinn til þess að fara aðeins út fyrir þægindarammann, prófa eitthvað nýtt eða gera það sem þig hefur alltaf langað til að prófa.

Hverjir geta tekið þátt?

Það geta allir verið með í Meistaramánuði. Eina skilyrðið er að fólk setji sér markmið. Þú setur reglurnar - þetta er þinn Meistaramánuður. Þú getur skráð þig til leiks hér til hliðar og við hvetjum þig til þess að nota kassamerkið #meistaram.

Hvað þarf ég að gera til þess að taka þátt í Meistaramánuði?

Í raun þarftu ekkert nema viljann og metnaðinn til að setja þér markmið fyrir einn mánuð og ná þeim. Við mælum með því að þú skráir þig til leiks á www.meistaramanudur.is og fáir sem flesta vini, fjölskyldumeðlimi og vinnufélaga til að taka þátt með þér. Svo þarftu bara að skrifa markmiðin niður.

Er þetta ekki bara enn eitt átakið eins og áramótaheitið sem ég stend aldrei við?

Meistaramánuðurinn á ekki að vera átak, heldur upphaf að breyttu og betra lífi. Meistaramánuðurinn snýst ekki bara um að taka vel á því í ræktinni eða taka til í mataræðinu heldur líka litlu hlutina eins og að eyða meiri tíma með fjölskyldunni eða lesa loksins bókina sem þú ætlaðir þér alltaf að lesa. Notum tækifærið og lítum í eigin barm. Er ekki eitthvað sem við megum bæta í fari okkar? Er ekki einhver áskorun sem okkur langar að sigrast á í eitt skipti fyrir öll?

Þarf ég að skrá mig einhvers staðar?

Við hvetjum fólk til þess að líka við Facebook-síðu Meistaramánaðarins til þess að fá reglulega hvatningu, ásamt því að skrá sig á www.meistaramanudur.is.

En ég lifi eins og meistari alla daga, af hverju ætti ég að breyta því?

Til hamingju með að hafa góða stjórn á lífi þínu. Sagt er að einstaklingar sem ná lengst í lífinu séu stanslaust að fara út fyrir þægindarammann og reyna þannig að bæta sig líka í hlutum sem þeir eru ekki góðir í. Ef afreksíþróttafólk og virtúósar listalífsins telja sig alltaf geta bætt sig þá getur þú það líka. Batnandi mönnum er best að lifa!

Ég æfi mikið og borða holla fæðu. Af hverju ætti ég að taka þátt?

Lestu bókina sem þig langaði alltaf til þess að lesa, lærðu að elda góðu kjötsúpuna hennar mömmu, prófaðu að æfa dans í einn mánuð og sjáðu hvort það er ekki miklu skemmtilegra en þú bjóst við. Þú hefur fjölmarga möguleika til þess að bæta við líf þitt bæði ánægju og gæðum, Meistaramánuðurinn einskorðast alls ekki við bætta líkamlega heilsu.

Hvað með áfengi?

Við mælum með því að fólk sleppi áfengi alfarið. Það getur verið erfitt að vera sá eini í vinahópnum sem hættir að drekka og því er tilvalið að menn leggist á eitt í Meistaramánuðinum og neiti sér um áfengi í sameiningu. Að detta í það um hverja helgi er alls ekki gott fyrir líkamann og því er tilvalið að nota þennan mánuð til þess að hvíla í það minnsta lifrina örlítið. Það hefur líka stórkostlega góð áhrif á budduna að hætta áfengisneyslu um tíma.

Það er árshátíð í vinnunni og ég á afmæli í mánuðinum, er í lagi að svindla þá?

Mundu að það ert þú sem setur reglurnar í þínum Meistaramánuði. Svo lengi sem þú ákveður að það sé einn svindldagur eða jafnvel fleiri í mánuðinum þá ertu með fulla stjórn á markmiðum þínum, lykilatriðið er að vera heiðarlegur við sjálfan sig. Vittu líka til, kannski langar þig bara ekkert til þess að fá þér sjúss þegar á hólminn er komið. Hugsanlega þráirðu einfaldlega að taka næsta dag snemma og með bros á vör?

Ég hef aldrei hreyft mig, hvað á ég að gera?

Byrjaðu hægt og leitaðu góðra ráða hjá fagfólki, kunningjum þínum eða hreinlega með því að kynna þér þetta á netinu. Sumar líkamsræktarstöðvar eru til dæmis með byrjendanámskeið. Það gæti verið tilvalin byrjun. Inni á Facebook-síðu Meistaramánaðarins munum við setja inn tengla á hlaupa- og sundæfingaplön og jafnvel eitthvað fleira sem gæti hjálpað.


En kostar þetta ekki alltof mikinn pening?

Meistaramánuðurinn á ekki að þurfa að kosta krónu. Í fyrsta skipti sem Meistaramánuðurinn var haldinn tóku aðeins bláfátækir háskólanemar þátt og nutu þess að gera ódýru og einföldu hlutina saman. Hvort sem það er að fara út að skokka, læra að hnýta flugur, elda meira með fólkinu sem manni þykir gott að vera með eða hætta að keyra í vinnuna þá verður hver og einn að finna sér markmið við sitt hæfi. Það á jafnt við um fjárhag, aldur, staðsetningu og allt annað sem markar lífsstíl þinn.

Ég get ekki vaknað snemma á morgnana, hvað á ég að gera?

Flestum ef ekki öllum þykir erfitt að vakna þreyttir á morgnana, enda er þetta einn af þessum hlutum sem fólk þarf að venjast. Gott ráð til þess að hrista af sér morgunmygluna fljótt og örugglega er að hugsa ekki um það að fara á fætur sem fyrstu athöfn dagsins heldur byrja daginn á því að fá sér stórt vatnsglas. Bæði er líkaminn oft vatnsþurfti eftir 8 tíma svefn og einnig er ágætt að sleppa því hreinlega að snúsa eða velta deginum fyrir sér og byrja hann tafarlaust á einhverju sem gerir þér gott.

Þættirnir

Þættirnir um Meistaramánuð Íslandsbanka eru sýndir á Stöð 2 á miðvikudögum í febrúar.

Fyrsti þáttur
25. janúar 2017

Við hittum sérfræðinga sem hjálpa okkur að velja markmið og gera áætlun til að ná þeim.

Annar þáttur
1. febrúar 2017

Meistaramánuður byrjar með látum. Salka Sól og Ævar vísindamaður eru með.

Þriðji þáttur
8. febrúar 2017

Gerum þetta skynsamlega. Stjórnum tækninni en látum hana ekki stjórna okkur.

Fjórði þáttur
15. febrúar 2017

Hvernig heldur maður sér við efnið? Við tókum stöðuna á fólki sem setti sér markmið.

Fimmti þáttur
22. febrúar 2017

Enn meira um markmið! Fimmti og síðasti þátturinn um Meistaramánuð 2017.